mánudagur, 4. nóvember 2013

Birkisáning á lítt grónum melum og munurinn á haust- og vorsáningu

Eftirfarandi er útdráttur úr grein Eggerts Konráðssonar, bónda að Haukagili í Vatnsdal, í Búfræðingnum 1936Birkisáðreitir í Vatnsdal. Greinin var endurbirt í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1989.
Af tilraunum þessum hefir fengist sú reynsla, að birkifræ getur fest rætur og upp af því vaxið plöntur, þótt jarðvegur hafi ekki frjósama mold, aðeins ef landið er ekki of þurrt.
Um tilraunirnar í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu, sem sáð var til 1927, skrifaði einnig þáv. skógræktarstjóri, Agnar F. Kofoed-Hansen, greinina Um stofnun skóglendis og trjágarða í Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1933-1934:
Á Hofi í Vatnsdal er svæðið á skrælþurru landi og moldarlagið þunnt. Vöxtur var 3 fyrstu árin sama sem enginn, en síðan fór hann batnandi samkvæmt því, sem áður var tekið fram um kröfur trjáplantna til ljóss og jarðvegshita, og nú eru margar plöntur um 30 sm. 
Þessar mælingar samræmast ágætlega niðurstöðum Bryndísar Marteinsdóttur og Sigurðar H. Magnússonar, sem birtust árið 2010 í Náttúrufræðingnum, í greininni Árangur birkisáninga á uppgræddu landi í Gára. Í rannsókn þeirra voru birkiplöntur sem sáð var til í Gára, austnorðaustan Gunnarsholts, 1992 og 1994 mældar árið 2007 og reyndist meðalvöxtur ungplantnanna undir 4 cm á ári. Meðalvaxtarhraði birkis á Íslandi mun vera 4,8-7,3 cm á ári, samkvæmt rannsókn Þorbergs Hjalta Jónssonar 2004. Fræið í Gárasáningunni mun einkum hafa verið úr görðum í Kópavogi og í greininni er Gára lýst sem örfoka landi, ekki ólíku Vakalág í næsta nágrenni.

Hér að neðan er svo kafli úr grein Ágústar Árnasonar: Sáning birkis á víðavangi, sem birtist í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1989.
Út og vestur af túninu í Hvammi í Skorradal voru illa grónir melar, sem hægt hefur gengið að græða upp þó landið hafi verið friðað fyrir beit frá árinu 1960. 
Svo vildi til fyrir um 12 til 15 árum að hér var til dálítið af grasfræi og birkifræi. Það mun hafa verið í seinni hluta maímánaðar að ég fékk nágranna minn með áburðardreifara og blandaði þessum fræafgöngum saman við tilbúinn áburð og fékk hann til að dreifa þessu á hluta af melnum hér fyrir utan tún. 
Grasfræið spíraði vel og brautirnar eftir dreifarann urðu grænar og skáru sig úr á melnum. Lítið bar á birkiplöntunum fyrst í stað en greinilegt var að þær lifðu í skjóli grassins. 
Á næstu árum var ekkert borið á þetta og sáð-grasið fór að fölna og deyja en smáplöntur af birki fóru að koma í ljós. Síðan hefur tvívegis verið dreift á þetta litlu magni af blönduðum tilbúnum áburði eftir að sáðgrasið var að mestu dautt. Birkiplönturnar hafa tekið mjög vel við sér af þessum áburðarskömmtum og eru nú þær stærstu komnar í um hnéhæð.
[...] Áberandi er að birkið er þéttast þar sem grasfræið spíraði best. Tekið skal fram að þetta var algjör handahófs tilraun. Ekkert efni mælt né vegið og ekkert skráð frá upphafi en árangurinn er skráður í dálítilli gróðursögu á melnum fyrir vestan tún í Hvammi. 

Loks er hér langur kafli úr grein Sigurðar H. Magnússonar og Borgþórs Magnússonar: Birkisáningar til landgræðslu og skógræktar í Skógræktarritinu 1990.
Tilraunirnar eru gerðar við skógarjaðra á fimm stöðum á Rangárvöllum við mismunandi gróður- og jarðvegsskilyrði. Þær eru á mel og hrauni sem eru hálfgróin, og í þursaskeggsmóa, grámosaþembu og mýrarjaðri sem eru algróin. Í tilraununum eru reyndar sex meðferðir með fimm endurtekningum. [...] Sáð var í reitina í lok september 1987 og um miðjan maí 1988.  
Sumarið 1988 var fylgst með spírun í tilraunareitunum á þriggja vikna fresti, frá miðjum júní og fram í september. Kímplöntur voru merktar með lituðum hringjum og var notaður einn litur fyrir hvern athugunartíma svo hægt væri að fylgjast með afföllum plantna sem spírað höfðu á mismunandi tímum. Þar sem svörður hafði ekki verið fjarlægður, var set (nærvist) hverrar kímplöntu flokkað og svarðarþykkt mæld. Haustið 1988 var stærð kímplantna mæld og talinn fjöldi blaða á hverri plöntu. Sumarið 1989 var vitjað um reitina aftur um miðjan júní og afföll könnuð og nýspírun skráð. Athuganir fóru einnig fram í júlí og í lok ágúst og voru þær með svipuðu sniði og árið áður, nema hvað nýjar kímplöntur voru ekki merktar. Rannsóknunum er ekki nærri lokið. Ætlunin er að halda þeim áfram í nokkur ár. Helstu niðurstöður sem fengist hafa eru í stuttu máli þessar:
  1. Haustsáning gaf yfirleitt meiri heildarspírun á næsta sumri en vorsáning (2. mynd). 
  2. Þau fræ sem sáð var að hausti spíruðu að langmestu leyti snemma sumars og haustspírun var nánast engin. Fræ sem sáð var að vori spíruðu mest um mitt sumar og spírun hélst lengur fram á sumarið en ef sáð var að hausti [...]. 
  3. Svörður hafði úrslitaáhrif á spírun. á algrónum, þurrum svæðum spíraði nánast ekkert, ef sáð var í svörð, sem var þykkari en einn cm. Þar sem rakt var, þ.e. í mýrarjaðrinum, var spírun aftur á móti allgóð í óhreyfðum sverði (2. mynd), en þar spíruðu fræin í mosalagi. 
  4. Í reyttum reitum (án svarðar) var spírun yfirleitt góð, en þó var allmikill munur milli staða. minnst spíraði á melnum en mest í mýrinni. 
  5. Stærð plantnanna var mjög misjöfn eftir svæðum. Minnstar voru plönturnar í grámosaþembunni en stærstar í mýrinni. 
  6. Sterkt samband var á milli aldurs (spírunartíma) og stærðar plantna fyrsta haustið. Því fyrr sem fræin spíruðu þeim mun stærri voru plönturnar að hausti [...]. 
  7. Á flestum stöðum voru afföll talsverð fyrsta veturinn, sem að miklum hluta stöfuðu af frosthreyfingum í yfirborði jarðvegs. Í mýrinni stóð vatn hátt að vori og lágu reitir undir vatni um tíma, sem var aðalorsök mikilla affalla þar. 
  8. Afföll voru misjöfn eftir svæðum og voru þau m.a. háð stærð plantnanna. því stærri sem þær voru fyrsta haustið þeim mun meiri voru lífslíkur þeirra (6. mynd). 
  9. Mikill munur var á afföllum að vetri eftir því í hvers konar seti plönturnar uxu. Á melnum voru þau t.d. mun meiri þar sem gróðurlaust var, en þar sem fræin höfðu spírað í þunnu gróðurlagi.
Myndum og tilvísunum til þeirra er sleppt í útdrættinum að ofan, að frátöldum myndum 2 og 6 sem birtar eru hér á eftir. Síðar í greininni segir svo frá um eftirlit með sáningunni og viðhald hennar:
Ef grannt er skoðað má greina árangur af sáningu birkifræs á fyrsta ári, en til þess verða menn að leggjast á fjóra fætur og rýna í sáðblettina. Birkiplönturnar verða ekki mjög áberandi fyrr en þremur til fjórum árum eftir sáningu. Ef land er mjög rýrt og sá gróður lítill er veitir birkinu samkeppni, getur það verið til bóta að dreifa örlitlu af tilbúnum áburði á sáðblettina þar sem birkið er að komast á legg.
2. mynd. Myndin er fengin að láni úr annarri grein Sigurðar um sömu
tilraun, frá 1989, sem birt er á landbunadur.is. Sú mynd sem finna má í skannaða
eintakinu í Skógræktarritinu er of óskýr til að nokkuð megi lesa út úr henni.
6. mynd. Átt hefur verið við myndina til til að gera hana læsilegri.
Til að fylgja eftir niðurstöðum Sigurðar og Borgþórs sem birtar voru 1990, um að spírun og lifun sé best í mýri (mýrarjaðri) er ágætt að grípa aftur niður í grein Agnars F. Kofoed-Hansen frá 1934 (Agnar gegndi starfi skógræktarstjóra á árunum 1908 til 1935):
Um þessar sáningar er það að segja, að þær hafa leitt í ljós, að með þessari aðferð er hægt að stofna nýjan skóg með hóflegum kostnaði, þar sem landið er grasi vaxið, hvort sem það er votlendi eða þurrlendi. Á votlendi tekst sáningin bezt, en þegar fram líða stundir, verður að ræsa landið fram, því að kröfur plantnanna breytast með aldrinum. Á fyrstu 3-4 árum þurfa þær skugga og raka, en síðar fullt dagsljós og hlýjan jarðveg til þess að vaxa sem bezt.
Raki er í það minnsta forsenda góðrar spírunnar. Þannig segir á vef Highland Birchwoods í Skotlandi:
Sowing should be timed, particularly in spring, with a damp spell of weather in order to promote early germination and root establishment. 
Á sama stað er lýst aðferð sem nefnd er forspírun (pre-chitting), en við köllum yfirleitt kaldörvun, til að stuðla að skjótari, öruggari og jafnari spírun:
Pre-chitting removes the uncertainty of germination and introduces material to the site which can very quickly establish itself and get beyond the vulnerable early growth stages before the onset of summer. It is imperative that pre-chitted seed is sown when the ground is damp. Pre-chitting is achieved by removing the seed from cold store and soaking in cold water for 48 hours. The seed is then put back in the fridge wet for a further fortnight [14 dagar], after which time the swollen seed will be showing signs of germinating. Care is required when sowing to avoid clumping of the wet material. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli